Nefco á Íslandi: Mun fleiri fjárfestingakostir í sjálfbærni og grænni tækni

Grænar fjárfestingar hafa tekið mikinn kipp á Íslandi. Nefco – the Nordic Green Bank fjármagnar nú fjölbreytt íslensk vaxtarfyrirtæki sem öll hlúa að umhverfinu á mismunandi hátt.

Read the article in English

Frá árinu 2019 hefur Nefco, grænn banki í eigu Norðurlanda, komið að fjármögnun sex íslenskra vaxtarfyrirtækja, þar á meðal tæknifyrirtækisins Carbon Recycling International og rafhlaupahjólaleigunnar Hopp. Fram að því hafði bankinn einungis fjármagnað eitt fyrirtæki í íslenskri eigu í þrjátíu ára sögu sinni. Ástæðan er aukin áhersla á þróun og útflutning íslenskrar tækni og hugvits sem stuðlar að sjálfbærni og og jákvæðum umhverfisáhrifum.

„Við tökum meiri áhættu í okkar fjárfestingum en venjulegur viðskiptabanki, að því gefnu að verkefnin hafi jákvæð áhrif á umhverfið,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, yfirmaður fjárfestinga Nefco í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum

Miklar breytingar á stuttum tíma

„Við höfum séð gríðarlega miklar og jákvæðar breytingar á græna fjárfestingaumhverfinu á Íslandi á síðastliðnum árum,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, yfirmaður fjárfestinga Nefco í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum. Fyrirtæki af því tagi eru uppistaðan í íslenska hagkerfinu. „Ísland er kjörinn vettvangur fyrir fjármálastofnun eins og Nefco. Við sjáum fleiri tækifæri en áður og finnum mikinn áhuga á okkar fjármögnun.“

Nefco er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu Norðurlandanna sem eingöngu fjárfestir í verkefnum sem stuðla að jákvæðum umhverfis- og loftslagsáhrifum. Allar umsóknir eru metnar út frá sjálfbærniviðmiðum Nefco og EU Taxonomy, nýju flokkunarkerfi ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

„Við tökum meiri áhættu í okkar fjárfestingum en venjulegur viðskiptabanki, að því gefnu að verkefnin hafi jákvæð áhrif á umhverfið,“ útskýrir Þórhallur og segir Nefco brúa ákveðið bil á íslenska fjármálamarkaðnum. „Það er fjöldi framkvæmda- og vísisjóða sem starfa á Íslandi, þar á meðal Tækniþróunarsjóður, og þeir koma yfirleitt að verkefnunum á undan okkur. Við komum hins vegar inn með áhættufjármagn sem getur verið erfitt að fá frá fjárfestum, oftast nær áður en viðskiptabankarnir eru tilbúnir til að taka áhættuna.“

Við tökum meiri áhættu í okkar fjárfestingum en venjulegur viðskiptabanki, að því gefnu að verkefnin hafi jákvæð áhrif á umhverfið.

Markmiðið er útflutningur grænna tæknilausna

Stærsta verkefni Nefco á Íslandi er samstarfið við tæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI), sem er brautryðjandi í framleiðslu eldsneytis úr koltvísýringi og vetni. Tæknin byggir á því að fanga útblástur, til dæmis frá iðnaði, og endurnýta koltvísýringinn til framleiðslu fljótandi metanóls sem nýtist sem grænt eldsneyti og hráefni í efnaiðnaði. Árið 2021 breytti Nefco 390 milljón króna láni til CRI í hlutafé og jók jafnframt við fjárfestingu sína í fyrirtækinu. Í lok árs 2022 opnaði svo fyrsta verksmiðjan í heiminum sem notar tækni CRI til framleiðslu metanóls á markaðsforsendum, en hún mun endurvinna allt að 160.000 tonn af koldíoxíði á ári.

„Okkar helsta markmið er að koma norrænni grænni tækni á framfæri á alþjóðavísu. Við fjármögnum fyrstu skrefin í alþjóðavæðingu fyrirtækjanna með áherslu á frumuppskölun grænnar tækni á nýjum mörkuðum. Ef allt gengur að óskum taka viðskiptabankarnir svo við, og þá er okkar hlutverki í raun lokið,“ útskýrir Þórhallur.

George Olah verksmiðja Carbon Recycling International í Svartsengi endurnýtir koltvísýring til framleiðslu metanóls, sem er umhverfisvænt rafeldsneyti. Mynd: CRI

Fyrsta íslenska tengingin var banki í Úkraínu

Fyrsta fjárfesting Nefco tengd Íslandi var Bank Lviv í Úkraínu, en bankinn er að stórum hluta til í íslenskri eigu. Samstarf Nefco og bankans um lánveitingar til orkusparandi verkefna nær aftur til ársins 2008. Nefco eignaðist nýlega 14% hlut í bankanum í tengslum við hlutafjáraukningu sem ætlað er að efla enn frekar græna útlánastarfsemi bankans í vesturhluta Úkraínu.

„Þetta var lengi vel eina tengingin við Ísland,“ segir Þórhallur, en skýringuna má finna í breyttum áherslum í rekstri stofnunarinnar. Áður sinnti Nefco einungis verkefnum í austur-Evrópu, með aðkomu norrænna fyrirtækja, en fjármagnar nú fyrirtæki á Norðurlöndum með alþjóðlega starfsemi.

Eitt þeirra er hugbúnaðarfyrirtækið og rafhlaupahjólaleigan Hopp, sem hefur náð athyglisverðum árangri á Íslandi. Þá hefur Hopp gert sérleyfissamninga víða um Evrópu, en í þeim felst að sérleyfishafar fá að nota hugbúnaðarlausn fyrirtækisins og geta að auki keypt rafhlaupahjól Hopp í kaupleigu. Fjármögnunin frá Nefco gerir Hopp kleift að fjölga sérleyfissamningum af þessu tagi í Evrópu og hefja þannig starfsemi í fleiri löndum.

„Nálgun Hopp er mjög spennandi. Rafhlaupahjól fyrirtækisins endast mun lengur en hjá helstu keppinautunum og þar að auki er Hopp með mjög ábyrgt ferli varðandi alla endurvinnslu. Félagið einbeitir sér að minni borgum og bæjum í Evrópu og er því ekki í samkeppni við neðanjarðarlestir og önnur sambærileg almenningssamgöngukerfi. Markmiðið er að minnka notkun einkabílsins og stuðla að vistvænni ferðavenjum.”

Icelandic Hopp receives financing from Nefco, the Nordic Green Bank
Rafhlaupahjólaleigan Hopp færir út kvíarnar með nýjum sérleyfissamningum í Evrópu. Mynd: Hopp

Fjölbreytt flóra fyrirtækja

Nefco er einnig meðal fjármögnunaraðila Klappa, grænna lausna. Hugbúnaður Klappa gerir fyrirtækjum, sveitarfélögum og stjórnvöldum kleift að fylgjast með losun koltvísýrings frá starfsemi sinni, bæta meðhöndlun úrgangs og gera ráðstafanir til að minnka kolefnissporið.

Aðrar fjárfestingar Nefco á Íslandi eru í Thor Ice, sem hefur þróað nýstárlega kæliaðferð sem minnkar matarsóun og bætir orkunýtingu í matvælaframleiðslu, Polar Fishing Gear, sem framleiðir toghlera úr endurunnu plasti sem minnka eldsneytisnotkun og vernda sjávarbotninn og lífríki hafsins, og Alvar (áður D-Tech) sem framleiðir umhverfisvænt úðakerfi til sótthreinsunar á matvælaframleiðslulínum.

Framtíðarsýn Norðurlanda fyrir árið 2030 er að þau verði sjálfbærasta svæði heims. Nefco gegnir þar lykilhlutverki með því að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélaginu og stuðla að útflutningi grænnar tækni.

„Ísland hefur skapað sér ákveðna sérstöðu varðandi tækniþróun og hráefnisnýtingu í sjávarútvegi. Við sjáum hér afraksturinn af því, en tæknin nýtist oft í fleiri geirum. Við hjá Nefco höfum mikinn áhuga á fjármögnun fyrirtækja í hringrásarhagkerfinu sem minnka úrgang og stuðla að bættri verðmætanýtingu.“

Þá nefnir Þórhallur jarðvarma sem áhugaverðan fjárfestingarkost þar sem Íslendingar búi yfir viðamikilli reynslu og þekkingu. Nefco er nú með í verkefni um nýtingu lágjarðvarma þar sem lántakandinn og tæknin eru sænsk en verkefnið staðsett á Íslandi.

Polar Green Recovery
Lítill fiskibátur sem notar toghlera Polar, sem framleiddir eru úr endurunnu plasti. Mynd: Polar Fishing Gear

Græna vegferðin hafin af fullum krafti

Að sögn Þórhalls tók græna sveiflan nokkuð seinna við sér hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Árlegt útflutningsverðmæti orkutækni í Danmörku var sem dæmi yfir 2.100 milljarðar íslenskra króna á árunum 2014-2021, og þar af skilaði vindorkutækni um helmingi verðmætisins árið 2021. Til samanburðar náðu gjaldeyristekjur Íslands af ferðaþjónustu hæst í 520 milljarða króna árið 2018 en voru 354 milljarðar 2022.

„Íslendingar einbeittu sér að því að byggja upp öfluga ferðaþjónustu í kjölfar hrunsins. Eins og þjóðinni einni er lagið hófst græna vegferðin hins vegar af fullum krafti þegar hún náði til landsins,“ segir Þórhallur. Hann hvetur íslensk fyrirtæki til að kynna sér möguleikana á fjármögnun frá Nefco. Stofnunin vinnur náið með Samtökum iðnaðarins, Íslandsstofu og Grænvangi, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, og heldur reglulega kynningarfundi á Íslandi.

Þátttaka Nefco er til marks um að tæknin stuðli að umhverfisvænni framtíð, og sú viðurkenning vekur áhuga annarra fjárfesta.

„Framtíðarsýn Norðurlanda fyrir árið 2030 er að þau verði sjálfbærasta svæði heims. Nefco gegnir þar lykilhlutverki með því að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélaginu og stuðla að útflutningi grænnar tækni,“ segir Þórhallur.

Hann segir umsóknarferlið einfalt, ekki síst í samanburði við aðrar alþjóðlegar fjármálastofnanir. Nefco bjóði staðlaða lánssamninga fyrir lán allt að 500 þúsund evrum, um 76 milljónum íslenskra króna, en að öll stærri lán séu sérsniðin að hverju fyrirtæki fyrir sig. Fjármögnunin er að hámarki fimm milljónir evra, eða um 760 milljónir króna. Þar að auki hefur Nefco umsjón með norræna verkefnasjóðnum, Nopef, en yfir 100 íslensk fyrirtæki hafa hlotið styrki úr sjóðnum.

„Þessir fjármunir geta haft mjög mikla þýðingu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, og þar fyrir utan njóta þeir aðilar sem Nefco fjármagnar góðs af sérhæfðri þekkingu okkar á umhverfis- og loftslagsmálum. Þátttaka Nefco er til marks um að tæknin stuðli að umhverfisvænni framtíð, og sú viðurkenning vekur áhuga annarra fjárfesta.“

Lærðu meira um fjármögnunarmöguleika okkar

Lán á markaðskjörum og hlutafjár fjármögnun
Fast-track lánsfjármögnun
Styrkir frá Nopef

Hafið samband við okkur

Thor Thorsteinsson Vice President, Green Transition Nordic SMEs
Icelandic, Swedish, English

Subscribe to our newsletter

Our digital newsletter is being published 4-6 times a year. To stay updated on our projects and activities, sign up here.