Nefco fjármagnar þróun nýrra aðferða til að efla líffræðilega fjölbreytni með viðskiptavinum sínum

Nýrri fjármögnunarleið Nefco, Biodiversity Pilot Programme, er ætlað að vísa veginn varðandi ábyrgð fjármálafyrirtækja og atvinnulífs við að vernda og auka líffræðilega fjölbreytni. Fjármögnunarleiðin er tveggja ára tilraunaverkefni, hið fyrsta sinnar tegundar.

Umhverfisfjármögnunarfélagið Nefco – The Nordic Green Bank kynnir nú nýja fjármögnunarleið, Nefco Biodiversity Pilot Programme. Markmiðið er að þróa nýjar aðferðir til að varðveita og auka líffræðilega fjölbreytni í samstarfi við þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Nefco.

Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, State of Finance for Nature, sem gefin var út 2021, þarf að þrefalda fjárfestingu í náttúrulegum lausnum ef alþjóðasamfélagið á að ná markmiðum sínum varðandi loftslagsbreytingar, líffræðilega fjölbreytni og landhnignun. Samkvæmt skýrslunni er þörfin á fjárfestingum í náttúrulegum lausnum á heimsvísu af stærðargráðunni 4,1 billjón bandaríkjadala.

“Fjármálafyrirtækin eru í lykilaðstöðu til að koma í veg fyrir að líffræðilegur fjölbreytileiki tapist og vernda og endurheimta náttúruna með réttum áherslum í starfsemi sinni. Sem umhverfisfjármögnunarfélag Norðurlandanna höfum við verið leiðandi í grænni fjármögnun, og nú viljum við vísa veginn fyrir þau fjármálafyrirtæki sem hyggjast taka mið af áhrifum verkefnanna á náttúruna í fjárfestingastefnu sinni,“ segir Trond Moe, framkvæmastjóri Nefco.

Nefco Biodiversity Pilot Programme verður hleypt af stokkunum haustið 2022 og er opið öllum núverandi viðskiptavinum Nefco á Norðurlöndum. Fyrirtækin verða valin með haustinu og verður fjármögnunin sniðin að stærð og þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig.

„Markmið okkar er að hvetja enn fleiri fyrirtæki og ábyrgðaraðila verkefna til að leggja áherslu á náttúruvænar lausnir og taka þátt í að þróa og miðla þekkingu um þessi mál. Þau fyrirtæki sem fá fjármögnun í verkefninu öðlast reynslu í að varðveita og auka líffræðilega fjölbreytni, tryggja að stefna fyrirtækjanna taki mið af náttúruvernd og vinna markvisst að því að koma í veg fyrir tap á líffræðilegri fjölbreytni. Í þessu felast mjög spennandi tækifæri fyrir fyrirtækin,“ segir Katariina Vartiainen, yfirmaður umhverfismála og sjálfbærni hjá Nefco.

Nefco Biodiversity Pilot Programme er undir stjórn Nefco í samstarfi við AFRY, alþjóðlegt verkfræði-, hönnunar- og ráðgjafarfyrirtæki sem var valið sem sérlegur ráðgjafi verkefnisins í opnu útboðsferli.

Nefco mun halda upplýsingafundi fyrir áhugasöm fyrirtæki á næstu vikum.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.nefco.int/biodiversity

Ítarefni: Biodiversity decline requires concrete actions from the financial sector

Allar ítarlegri upplýsingar veitir:

Katariina Vartiainen, yfirmaður umhverfismála og sjálfbærni hjá Nefco
katariina.vartiainen@nefco.int, +358 10 618 0485


Subscribe to our newsletter

Our digital newsletter is being published 4-6 times a year. To stay updated on our projects and activities, sign up here.