Góður árangur á krefjandi tímum: Ársskýrsla Nefco 2023 sýnir jákvæða afkomu með ríkri áherslu á grænar fjárfestingar

Nefco – the Nordic Green Bank, sem vinnur að því að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélaginu, hefur gefið út ársskýrslu fyrir árið 2023. Nefco er í eigu Norðurlandanna fimm og gegnir lykilhlutverki í framtíðarsýn þeirra um að verða sjálfsbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Hagnaður Nefco árið 2023 var 10,8 milljónir evra (2022: -53,3 milljónir evra). Það er mikill viðsnúningur frá árinu 2022 sem einkenndist af verulegum afskriftum í Austur-Evrópu vegna árásarstríðs Rússlands í Úkraínu. Fjárfestingar Nefco í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum skiluðu umtalsverðum vaxtatekjum árið 2023, og þá jukust tekjur Nefco í Austur-Evrópu, einkum og sér í lagi í Úkraínu. Aukningin er að mestu til komin vegna vaxtatekna af útlánum og endurgreiðslu lána sem áður höfðu verið afskrifuð. Vörslusjóðir í umsjá Nefco skiluðu einnig jákvæðum árangri. Sjóðirnir fjármagna verkefni tengd grænni orku á svæðum þar sem aðgangur að dreifikerfum er takmarkaður, bættri eldunaraðstöðu í þróunarríkjum og umhverfisaðgerðum í Eystrasaltshafinu. 

Verkefnin í fjárfestingasafni Nefco voru alls 324 í lok árs 2023. Þar af voru 83 fjárfestingaverkefni, og er þar í flestum tilvikum um að ræða lánveitingar sem fjármagnaðar eru með eigin fé Nefco. Upphæðin sem ráðstafað hefur verið til þessara verkefna er samtals 205,2 milljónir evra. Þar að auki hefur Nefco úthlutað samtals 206,8 milljónum evra til 241 verkefnis úr sjóðum í umsjá stofnunarinnar. 

Kjarninn í fjárfestingum Nefco snýr að því að draga úr loftslagsbreytingum og aðlagast að áhrifum þeirra, minnka mengun og tryggja líffræðilegan fjölbreytileika. Nefco kemur að verkefnum og fjárfestingum í fjölda mismunandi geira, en helstu áherslurnar eru á lausnir í orku-, bygginga- og fasteignageiranum, vatnsveitu og úrgangsmeðferð, framleiðslu og samgöngum, ávallt með það að meginmarkmiði að draga úr loftslagbreytingum. Einnig hefur Nefco aukið fjárfestingar í sjálfbærri nýtingu og verndun ferskvatns- og sjávarauðlinda, sem og mengunarvörnum og -eftirliti. 

Allar fjárfestingar Nefco frá og með árinu 2022 hafa verið metnar í samræmi við þau evrópsku viðmið sem voru í gildi í nóvember 2023 (takmörkun losunar og aðlögun að loftslagsbreytingum). Samkvæmt matinu uppfylla yfir 70 prósent af fjárfestingasafni Nefco viðmið flokkunarkerfis ESB um sjálfbærar fjárfestingar. 

Trond Moe, framkvæmdastjóri Nefco, segir lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki gegna lykilhlutverki í Norræna hagkerfinu og grænum umskiptum í samfélaginu. Oft reynist fyrirtækjunum hins vegar erfitt að fá lánsfjármagn frá hefðbundnum viðskiptabönkum.  

„Við viljum brúa það bil sem á ensku kallast „the missing middle“. Fjármögnun Nefco styrkir stöðu fyrirtækjanna á fyrstu vaxtarstigum þeirra og gerir þeim kleift að laða til sín fleiri fjárfesta og fjármögnun frá einkageiranum. Leiðarljósið í okkar fjárfestingum er að sýna fram á vaxtarmöguleika grænna lausna á nýjum mörkuðum“. 

Eitt helsta hlutverk Nefco er að efla vöxt, samkeppnishæfni og græn umskipti meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum. Árið 2023 fjárfesti Nefco í átta nýjum verkefnum með það að markmiði að skala upp starfsemi fyrirtækja af þessu tagi á Norðurlöndum. Fjárfestingin nam samtals 20,8 milljónum evra. Þá veitti Nefco fjögur svokölluð fast-track lán, samtals að upphæð 1,8 milljónum evra. 

Líffræðilegur fjölbreytileiki og uppbygging í Úkraínu

Þá styrkti tilraunaáætlun Nefco um líffræðilegan fjölbreytileika, sem einnig er ætlað litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum, sex metnaðarfull verkefni sem öll stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika á mismunandi hátt. Markmið áætlunarinnar er að hvetja fyrirtæki og forsvarsmenn verkefna til þess að taka mið af náttúrunni í öllum sínum störfum. 

Í Austur-Evrópu hefur helsta áherslan verið á sérstakan sjóð sem fjárfestir í umhverfisvænni enduruppbyggingu Úkraínu, Nefco Green Recovery Programme for Ukraine. Sjóðurinn hefur fengið stuðning frá fjölda aðila og hafði í lok árs 2023 safnað samtals um 290 milljónum evra frá vörslusjóðum í Evrópusambandinu og ríkisstjórnum Norðurlandanna. Í lok árs voru 40 endurreisnarverkefni komin af stað og von er á enn fleirum innan skamms. 

“Nefco á í góðu samstarfi við úkraínsk sveitarfélög og yfirvöld með það fyrir augum að takast á við beinar og óbeinar afleiðingar stríðsins tryggja að endurbygging Úkraínu skili sjálfbærra og betra samfélagi. Það hefur verið mikið um að vera í Úkraínu árið 2023 og í lok ársins voru 40 endurreisnarverkefni komin á fullt. Markmið okkar er að efla viðnámsþrótt úkraínsku þjóðarinnar, stuðla að sjálfbærri þróun og efla tengslin milli Úkraínu og Evrópu,“ segir Moe. 

Forysta í grænum umskiptum

Norðurlöndin leggja metnað sinn í að vera leiðandi á heimsvísu í sjálfbærni og grænum umskiptum, ásamt því að efla samkeppnisfærni norrænna fyrirtækja, stuðla að aðgerðum til þess að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og vinna að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SDG).  

“Norðurlöndin eru meðal þeirra heimshluta sem búa við mesta efnahagslega hagsæld og stöðugleika og lýðræðið stendur sterkt að vígi. Við höfum því ekki bara tækifæri til þess að taka forystuna í grænum umskiptum, okkur ber hreinlega skylda til þess“, segir Moe.  

Ítarlegri upplýsingar: Ársskýrsla Nefco 2023.

Nefco er alþjóðleg fjármálastofnun (IFI) sem stofnuð var árið 1990 af Norðurlöndunum fimm, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Hlutverk Nefco er að greiða fyrir grænum umskiptum með fjármögnun sem ætlað er að efla útflutning norrænna grænna lausna á alþjóðlega markaði. Fjárfestingar Nefco eru fjölbreyttar og ná yfir allt frá endurnýjanlegri orku og hringrásarhagkerfinu til mengunarvarna og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika. Nefco veitir lánsfjármögnun áður en viðskiptabankarnir eru tilbúnir til þess að taka áhættuna og brúar þannig ákveðið bil í fjármögnun fyrirtækjanna og stuðlar að hraðari vexti. Eitt helsta markmið Nefco er að tryggja að fyrirtækin verði fjárfestingarhæf og gera þeim kleift að laða að fleiri fjárfesta og fjármögnun úr einkageiranum.

Nefco gegnir því lykilhlutverki í framtíðarsýn Norðurlandanna um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Ítarlegri upplýsingar www.nefco.int.

Nánari upplýsingar: 

Trond Moe, framkvæmdastjóri Nefco 
Trond.moe@nefco.int, +358 50 329 0860 

Josefin Hoviniemi, forstöðumaður upplýsingamála, Nefco 
josefin.hoviniemi@nefco.int, +358 50 464 6995 


Subscribe to our newsletter

Our digital newsletter is being published 4-6 times a year. To stay updated on our projects and activities, sign up here.