Nefco árið 2022: Fleiri lítil og meðalstór fyrirtæki fá vaxtarfjármögnun

Nefco, umhverfisfjármögnunarfélag í eigu Íslands og hinna Norðurlandanna, hefur birt ársuppgjör fyrir árið 2022. Þar með talið eru ársreikningur félagsins og upplýsingar um ófjárhagslega mælikvarða, nánar tiltekið skýrslur um samfélags- og umhverfisáhrif félagsins, siðferðileg viðmið og hlítni við lög og reglugerðir.

Hlutverk Nefco er at flýta sjálfbærum umskiptum í samfélaginu með því að skala upp umhverfisvæna tækni og aðrar sjálfbærar lausnir frá Norðurlöndum sem hafa burði til að ná góðum árangri á alþjóðamörkuðum.

Græn fjármögnunarstarfsemi Nefco skiptist í þrjár viðskiptaeiningar: Fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum, fjármögnun verkefna í Austur-Evrópu og umsjón með sérstökum sjóðum fyrir hönd annarra aðila.

„Starfsemi Nefco á árinu 2022 markaðist að miklu leyti af tveimur þáttum. Annars vegar mikilli aukningu í fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum og hins vegar hrottalegri, ólöglegri og tilefnislausri innrás Rússlands í Úkraínu,“ segir Trond Moe, framkvæmdastjóri Nefco.

Heildartekjur á árinu, að undanskildu virðismati fjárfestingareigna, var 10,2 milljónir evra. Beinar tekjur Nefco eru vaxtatekjur af útlánastarfsemi, sem fjármögnuð er með eigin fé félagsins, ásamt greiðslum fyrir umsýslu sjóða fyrir hönd annarra.

Nettóvaxtatekjur jukust úr 6,0 milljónum evra árið 2021 í 6,8 milljónir árið 2022. Aukningin skýrist að megninu til af vexti í útlánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Tekjurnar af umsýslu sjóða fyrir hönd annarra aðila lækkuðu úr 3,8 milljónum evra árið 2021 í 3,1 milljón árið 2022. Lækkunin er sökum breytinga á verkefnastöðu, þar sem nokkrum umsýsluverkefnum var lokið á árinu. Áhrifin af nýjum samningum Nefco á þessu sviði munu hins vegar ekki skila sér fyrr en að nokkrum árum liðnum.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga erfitt með að tryggja sér lánsfjármögnun á fyrstu vaxtarskeiðum sínum, bæði vegna þeirrar áhættu sem fólgin er í lánveitingunni og þar sem fyrirtækin eiga jafnan lítið af eignum sem leggja mætti fram sem tryggingu. Nefco mætir þessum markaðsbresti og fjármagnar sífellt fleiri græn vaxtarfyrirtæki á Norðurlöndum með góðum árangri. Hægt væri að efla grænar fjárfestingar enn frekar með því að auka fjármögnunargetu Nefco og sýna fram á að aðferðarfræði félagsins hentar einnig vel í stærri fjárfestingum á fjármálamörkuðum.

Verkefnum Nefco á sviði fjármögnunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum fjölgaði talsvert á árinu. Gerðir voru 19 nýir lánssamningar, samtals að upphæð 40,2 milljónir evra (sem er aukning úr 18,5 milljónum evra árið 2021). Í lok árs 2022 tók Nefco virkan þátt í fjármögnun 62 lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum.

Innrás Rússlands í Úkraínu varpaði dökkum skugga á annars jákvæða þróun í starfsemi Nefco árið 2022. Allar lánveitingar til Úkraínu stöðvuðust um tíma. Starfsemin í landinu hófst aftur síðar á árinu með styrktarfjármögnun úr ýmsum áttum sem Nefco hafði umsjón með. Í lok árs voru framkvæmdir á mismunandi stigum á vegum 23 verkefna hafnar í Úkraínu. Nefco tók einnig ákvörðun um að hætta allri fjármögnunarstarfsemi í Rússlandi og Belarús.

Vegna stríðsins og í því skyni að stýra áhættu sinni hefur Nefco niðurfært talsvert af útlánum sínum í Austur-Evrópu til að mæta hugsanlegum afföllum. Þá hefur Nefco einnig fært niður virði fjárfestinga sinna á svæðinu.

Í lok árs var fjöldi útistandandi lána hjá Nefco 67 (aukning úr 53 árið 2021) og var bókfært virði þeirra 55,9 milljónir evra (lækkun úr 96,5 milljónum evra milli ára vegna niðurfærslu lána í Úkraínu). Þá átti Nefco eignarhluti í 12 fyrirtækjum (óbreytt frá 2021) og var bókfært virði þeirra 13,4 milljónir evra (lækkun úr 15,3 milljónum evra frá árinu 2021 sökum niðurfærslu fjárfestinga í Úkraínu).

Heildarniðurstaða ársins, sem sýnir afkomuna eftir niðurfærslu útlána og fjárfestinga í Úkraínu, var neikvæð um 53,5 milljónir evra. Rekstrarhagnaður Nefco að frátaldri virðislækkun útlána og eignarhluta félagsins var 1,7 milljónir evra.

Græn endurbygging Úkraínu

 Innrás Rússlands hefur haft hörmuleg áhrif á úkraínsku þjóðina og valdið gríðarlegri eyðileggingu á innviðum og umhverfi í landinu. Þörfin á endurbyggingu er mikil en í því felast jafnframt tækifæri til að tryggja að endurbyggingin verði sjálfbær og stuðli að kolefnishlutleysi og aukinni nýtingu náttúrumiðaðra lausna í Úkraínu í framtíðinni. Í júlí 2022 setti Nefco á fót nýtt fjármögnunarátak, Green Recovery for Ukraine, sem ætlað er að styðja við bakið á úkraínskum sveitarfélögum. Framlög til verkefnisins koma frá Evrópusambandinu, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Nefco hefur átt gott samstarf við sveitarfélög í Úkraínu í meira en tíu ár. Áherslan er nú á að vernda og endurbyggja mikilvæga innviði og byggja sjálfbært húsnæði fyrir fólk sem er á flótta innan landamæra Úkraínu.

„Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í endurreisn landsins. Við erum í nánu samstarfi við úkraínsk sveitarfélög og fyrstu framkvæmdir eru nú þegar hafnar innan þessa nýja átaks. Markmiðið með öllum okkar verkefnum er að sýna fram á að hægt sé að endurbyggja Úkraínu með góðum árangri og á sjálfbæran hátt,“ segir Trond Moe.

Aukning í umsjón með sjóðum

Þróunin var jákvæð á árinu hjá þeirri viðskiptaeiningu Nefco sem hefur umsjón með sérstökum sjóðum fyrir hönd annarra. Viðskiptaeiningin starfar með sjóðum og fjármögnunarverkefnum sem byggja á framlögum frá mismunandi bakhjörlum. Verkefnin hafa það öll að markmiði að vinna gegn loftslagsbreytingum, takmarka mengun og hvetja til aukinna einkafjárfestinga sem styðja við markmið Parísarsamkomulagsins.

Beyond the Grid Fund for Africa færði út kvíarnar til fleiri Afríkulanda á árinu. Markmið verkefnisins er að hvetja til aukinnar notkunar sjálfbærra og hagkvæmra orkulausna sem eru óháðar dreifikerfinu með árangursmiðaðri fjármögnun. Noregur hefur nú slegist í hóp bakhjarla verkefnisins, Svíþjóðar, Danmerkur og Þýskalands. Fyrir árslok 2022 var fjöldi áskrifta að orkuþjónustu orðnar 38.519 en þær munu koma 200.395 einstaklingum til góða. Markmiðið er að koma á allt að 1,44 milljónum orkutenginga fyrir árið 2028, sem munu gagnast meira en 6,5 milljónum íbúa í suðurhluta Afríku.

Þá var nýju verkefni, Modern Cooking Facility for Africa, hleypt af stokkunum á árinu 2022. Markmið verkefnisins er að tryggja meira en þremur milljónum Afríkubúa aðgang að bættri eldunaraðstöðu, efla lýðheilsu og stuðla að auknum hagvexti. Gert er ráð fyrir að fyrstu fjármögnunarlotu verkefnisins verði lokið á þessu ári.

Framkvæmdaáætlun Eystrasaltssjóðsins, The Baltic Sea Action Plan Fund, samþykkti níu verkefni sem hlutu samtals 1,8 milljónir evra úr sjóðnum. Fjármögnunin verður nýtt til áframhaldandi umhverfisumbóta á Eystrasaltssvæðinu.

Líffræðilegur fjölbreytileiki, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið í fyrirrúmi

Í lok árs 2022 snerist meirihluti verkefna Nefco um að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þá hefur verkefnum innan hringrásarhagkerfisins fjölgað, meðal annars í orkugeiranum, byggingum og húsnæði, framleiðslu og samgöngumálum.

Hvað varðar umhverfismál leggja Norðurlöndin nú mikla áherslu á aðgerðir til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og þróa náttúrumiðaðar lausnir. Ábyrgð fjármálastofnana á þessum sviðum er lýst í nýjum alþjóðasamningi um líffræðilegan fjölbreytileika, Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework, sem var samþykktur í desember 2022. Haustið 2022 hleypti Nefco af stað nýju verkefni, Biodiversity Pilot Programme með þáttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum. Markmiðið er að aðstoða fyrirtækin við að greina þau tækifæri og áskoranir sem líffræðilegur fjölbreytileiki felur í sér fyrir fyrirtækin og gera þeim kleift að gera prófanir á náttúrumiðuðum lausnum í starfsemi sinni.

„Framlag Nefco til fjármögnunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur skilað sér í mjög ánægjulegum dæmum um vel nýtt vaxtartækifæri. Tilraunaverkefnið um líffræðilegan fjölbreytileika mun án efa skila mikilvægri þekkingu á meðan við þróum og prófum okkur áfram með náttúrumiðaðar lausnir í samvinnu við fyrirtækin,“ segir Trond Moe.

Nefco hefur nýtt sér aðferðarfræðina sem lýst er í flokkunarkerfi Evrópusambandsins um sjálfbæra starfsemi, EU taxonomy, við mat verkefna á árinu. Þá hefur Nefco einnig birt lista yfir verkefnaflokka sem félagið hyggst ekki taka þátt í sökum óæskilegra umhverfisáhrifa. Þar á meðal eru verkefni sem snúast um jarðefnaeldsneyti, skógrækt og búfjárrækt, ásamt verkefnum sem hafa verið útilokuð á grundvelli siðferðissjónarmiða, laga og samþykkta.

Framtíðarsýn Norðurlanda 2030

Norðurlöndin hafa sett sér markmið um að vera leiðandi á heimsvísu í sjálfbærni og vistvænum umskiptum og styrkja jafnframt samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja. Græn fjármögnun Nefco mætir mikilvægri þörf meðal lítilla og meðalstórra norrænna fyrirtækja. Í ljósi þessa gegnir félagið lykilhlutverki í innleiðingu framtíðarsýnar Norðurlandanna og áformum þeirra um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Samstarf Norðurlandanna hefur mikla þýðingu, ekki bara innan landanna sjálfra heldur einnig í Evrópu og um heim allan.

„Á umbrotatímum sem þessum er hlutverk Nefco, sem er að flýta fyrir vistvænum umskiptum í samfélaginu, mikilvægara en nokkru sinni fyrr,“ segir Trond Moe.

Ítarlegri upplýsingar:

Nánari upplýsingar veita:

Trond Moe, framkvæmdastjóri, Nefco
Trond.moe@nefco.int, +358 50 329 0860

Josefin Hoviniemi, , yfirmaður samskipta- og upplýsingamála hjá Nefco
josefin.hoviniemi@nefco.int, +358 50 464 6995


Subscribe to our newsletter

Our digital newsletter is being published 4-6 times a year. To stay updated on our projects and activities, sign up here.