Ársskýrsla Nefco 2021: Aukning í grænni fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum

Nefco markaði sér nýja stefnu árið 2021 og fagnaði jafnframt 30 ára aðkomu sinni að grænni fjármögnun norrænna fyrirtækja. Markmiðið er stuðla að framgangi sjálfbærrar tækni og annarra umhverfislausna á alþjóðlegum mörkuðum. Græn viðspyrnulán Nefco til lítilla og meðalstórra fyrirtækja hlutu góðar viðtökur, og hefur fjöldi verkefna nú þegar hlotið fjármögnun. Önnur fjárfestingarstarfsemi fór fram samkvæmt áætlun.

Í lok árs 2021 kom Nefco að fjármögnun 400 verkefna (381 árið 2020). 59 fjárfestingarverkefnum lauk á árinu en 91 til viðbótar voru samþykkt. Í 137 tilfellum var um að ræða verkefni sem metin voru samkvæmt nýrri reglugerð og flokkunarkerfi ESB um sjálfbærar fjárfestingar, EU Taxonomy for Sustainable Investments. Samkvæmt bráðabirgðamati uppfylla 76% fjárfestingarverkefna Nefco sjálfbærniviðmið ESB.

„Árið 2021 var fyrsta árið sem við unnum eftir evrópsku stöðlunum um sjálfbærar fjárfestingar til viðbótar við okkar eigin umhverfis- og sjálfbærniviðmið. Sú vinna heldur áfram, en sem græni banki Norðurlandanna erum við mjög ánægð með árangurinn og reynsluna af kerfinu,“ segir Trond Moe, framkvæmdastjóri Nefco.

Flest þeirra verkefna sem Nefco fjármagnar snúast um að takmarka áhrif loftslagsbreytinga, meðal annars með bættri orkunýtni og framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Einnig hefur verkefnum sem tengjast sjálfbærri nýtingu og verndun vatns og sjávarauðlinda, mengunarvörnum og hringrásarhagkerfinu fjölgað umtalsvert.

Rekstrarafkoma Nefco á árinu var jákvæð um 2,9 milljónir evra (3,6 milljónir árið 2020). Vaxtatekjur vegna útlána jukust um 9% samanborið við 2020. Rekstrarkostnaður jókst á milli ára, einna helst vegna ráðninga nýrra starfsmanna til að styðja við nýja stefnu Nefco.

Í lok árs 2021 var eigið fé Nefco 172,6 milljónir evra (169,6 milljónir árið 2020). Auk þess hefur Nefco umsjón með fjárvörslusjóðum að upphæð 361 milljónir evra (428,5 milljónir árið 2020).

Áhersla á útflutning á norrænum umhverfislausnum

Í nýrri stefnu Nefco er lögð áhersla á fjármögnun sem gerir litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum kleift að hasla sér völl með sjálfbærni- og umhverfislausnir sínar á erlendum mörkuðum.

„Það getur verið erfitt fyrir þessi fyrirtæki að fá fjármagn til þess að skala upp starfsemina. Við erum hins vegar í þeirri stöðu að við getum tekið meiri áhættu en aðrir, að því gefnu að hægt sé að sýna fram á jákvæð umhverfisáhrif,“ segir Trond Moe. „Heimsfaraldurinn hefur víða hægt á vexti fyrirtækja og því ákváðum við að bjóða upp á græn viðspyrnulán fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Fyrstu verkefnin voru samþykkt í janúar, stuttu eftir að lánin voru kynnt til sögunnar, og allt síðasta ár bættust fleiri og fleiri áhugaverð verkefni við.“

Í lok árs 2021 átti Nefco þátt í fjármögnun 46 verkefna í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem störfuðu á alþjóðlegum mörkuðum. Þá kom Nefco að 157 hagkvæmniathugunum í tengslum við hugsanlegan útflutning norrænna fyrirtækja, sem fjármagnaðar voru af Norræna verkefnissjóðnum, Nopef.

„Starfsemi Nefco stuðlar að grænum umskiptum í samfélaginu. Ánægjulegustu stundirnar í okkar starfi eru þegar frumkvöðlar frá Norðurlöndum ná góðum árangri á alþjóðlegum mörkuðum og þegar verkefnin sem Nefco fjármagnar sýna fram á hvað er í raun hægt að gera varðandi sjálfbærni og umhverfisvernd. Við viljum ekki bara fá arð af fjárfestingunni, við viljum hafa raunveruleg áhrif.“

Auk þess að fjármagna starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja er Nefco virkur þátttakandi í verkefnum sem stuðla að auknu aðgengi að hreinni orku í Afríku. Verkefnin eru meðal annars sprottin af 6. grein Parísarsamkomulagsins sem hvetur til aðgerða til þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Nefco á sér langa sögu í austur-Evrópu, þar sem stofnunin hefur komið að grænum umskiptum sveitarfélaga. Starfsemin hefur haft víðtæk jákvæð áhrif á samfélagið. Í kjölfar grimmdarlegrar, ólöglegar og tilefnislausrar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar 2022, með stuðningi Hvíta-Rússlands, hefur Nefco ákveðið að hætta strax allri starfsemi í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi eins og tilkynnt var í yfirlýsingu þann 9. mars síðastliðinn. Nefco mun áfram styðja viðskiptavini, samstarfsaðila og verkefnastarf í Úkraínu eftir fremsta megni.

Margvísleg áhrif á umhverfismál og sjálfbærni

Flest þau verkefni sem Nefco fjármagnar miða að því að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga með því að takmarka losun koltvísýrings (CO2). Kolefnissjóðir Nefco minnkuðu útblástur að jafngildi 2,09 milljónum tonna CO2e (Certified Emissions Reductions – CER). Frá því að sjóðirnir voru settir á stofn upp úr 2000 hafa þeir minnkað losun sem samsvarar 31,6 milljón CER-einingum. Sjóðirnir voru lagðir niður í lok árs 2021.

Aðgerðir til bættrar orkunýtni sem Nefco fjármagnar hafa minnkað orkunotkun um 109 gígawattstundir. Orkunýtniverkefni Nefco í Austur-Evrópu hafa að meðaltali minnkað raforkuneyslu um 62% og varmaorkuneyslu um 58% miðað við orkunotkun áður en verkefnin hófust. Þannig minnkaði losun koltvísýrings um 63%. Bætt götulýsing minnkaði orkunotkun um 75% að meðaltali.

Gert er ráð fyrir því að þau verkefni sem Nopef, Norræni verkefnasjóðurinn, fjármagnaði árið 2021 skili 190 nýjum störfum og yfir 26 milljónum evra í grænum fjárfestingum á komandi árum. Tölurnar byggja á ítarlegri greiningu á fjárfestingaáætlun Nopef sem bendir til þess að hvert verkefni skili tíu nýjum störfum, þar af tveimur á Norðurlöndum. Heildarfjárfesting í verkefnum með aðkomu sjóðsins er um ein milljón evra að meðaltali. Nopef er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni en Nefco hefur haft umsjón með starfseminni frá árinu 2014.

Skýrsla Nefco um umhverfismál og sjálfbærni 2021 (á ensku)

Nánari upplýsingar

Josefin Hoviniemi, forstöðumaður upplýsingamála, Nefco
josefin.hoviniemi@nefco.int, +358 50 464 6995

Trond Moe, framkvæmdastjóri Nefco
Trond.moe@nefco.int, +358 10 618 0662


Subscribe to our newsletter

Our digital newsletter is being published 4-6 times a year. To stay updated on our projects and activities, sign up here.